17.05.2008 08:25

Ný tölva

Þá kom að því að ég varð hreinlega að fá mér aðra vél þar sem ég var farinn að þurfa að bíða í allt að 30 sek eftir einfaldri vinnsluaðferð í photoshop. Svo ég skellti mér á tilboð hjá Tæknibæ. Nema hvað, tilboðið sem ég pantaði var ekki alveg klárt, örgjörvinn var búinn, svo ég fékk næsta Hop-Up með Intel4 Dual Core 64 bita, sem er bara fínt. Tvöfaldaði DDR II vinnsluminnið og núna er ég varla búinn að sleppa músartakkanum þegar aðgerðin hefur verið framkvæmd.

Prófaði að vinna þunga RAW mynd og ég get svo svarið að þetta er eins og að vinna 250 kb jpeg mynd áður.

Allavega er ég vel settur í bili í það minnsta með tölvubúnaðinn og er bara gaman að vinna í Photoshop núna á meðan nýjabrumið er að fara af þessu.

Svo kemur að því að ég skutla inn hérna Best Of myndum frá síðustu myndatökum.

29.04.2008 23:01

London

Ekki ætla ég að fara að rita hér ferðasöguna strax, heldur láta vita af því að komnar eru inn myndirnar flestar. Þar má sjá t.d. heimsóknina í Vaxmyndasafnið ásamt heimsókn til Drollu, hún bað að heilsa :)

En ferðasagan kemur síðar.

19.04.2008 22:55

London Town

Þá styttist óðfluga í ferðina mína og frúarinnar, góð helgarreisa til London. Förum út á fimmtudaginn og komum heim seint á sunnudagskvöldinu. Tilgangurinn er árshátíð hjá vinnuveitandanum, en það er bara eitt kvöld, föstudagskvöldið, hinn tíminn er á okkar vegum ef svo má að orði komast.

Nú hefur konan lítið farið af landinu og er þetta gífurlega spennandi fyrir hana og er ég mikið spenntur fyrir hennar hönd. Ég hef farið eiginlega of oft, vegna vinnunnar, þá eingöngu á námskeið. Farið tvívegis til Slóvakíu í evrópuverksmiðjurnar fyrir KIA Motors, hin skiptin í höfuðstöðvarnar í Frankfurt. Ég hefði glaður viljað fara allar þessar ferðir ef ég hefði möguleika á að gera eitthvað annað en að sitja á skólabekk frá 8 til 17 alla dagana sem þessi námskeið standa í hvert skipti. Fyrstu þrjú-fjögur skiptin voru svosem spennandi, en þegar líða tók á, þá varð þetta eiginlega leiðigjarnt og ekki til neinnar tilhlökkunar sérstaklega.

Allavega verður mikið skoðað og höfum bókaða miða á ABBA showið Mama Mia, sem er gífurlega vinsælt um þessar mundir. Madam Tusoids, Tower of London, kannski London Eye ef vel viðrar. Regent Street verður labbað og skoðað í búðir, ofl. ofl.

Það sem ég óttast helst er blessuð London rigningin, sem steypist fyrirvaralaust úr loftinu, hef reynslu af því frá fyrri tíð. Þannig að maður byrjar á því að versla sér litla og netta regnhlíf, svona London Style :)

Pósta svo hér inn ferðasögunni þegar túrinn er af staðinn. :)

Að sinni.

24.03.2008 09:51

Gestabókin


Elsku hjartans krúsidúllurnar mínar, ég vil endilega að þið sem kíkið á síðuna, kvittið svo ég geti endurgoldið innlitið :)

Díll? 

22.02.2008 23:18

KIA námskeiðið

Þá er afstaðið fyrsta yfirgripsnámskeiðið sem ég held fyrir þjónustuaðila KIA á landinu. Fyrsta af nokkrum sem ég mun skipuleggja og halda. Af nægu efni er að taka og verður framvindan í beinu framhaldi af árangri þessa námskeiðs. Þó hafði ég af því nokkrar áhyggjur að ég væri með of stífa efnisyfirferð, en tel mig hafa lágmarkað hættuna með því að afhenda sjálf námskeiðsgögnin ásamt fleira efni sem þáttakendur geta svo skoðað í rólegheitum seinna ásamt því að geta notað þetta efni sem uppflettirit til greininga og viðgerða.

Og sjálfur tel ég að þetta hafi heppnast vel, í það minnsta einhver árangur. Þó veit ég það eftir að hafa sótt allmörg þjálfunarnámskeið, að árangurinn kemur ekki alltaf strax í ljós. Nú t.d. tveimur árum eftir fyrstu námskeiðin, er ég enn að rifja upp eitthvað sem kom fram þá, eitthvað sem lá kannski ekki alveg ljóst fyrir fyrstu mánuðina á eftir.

Þarna kom saman afar góður hópur manna sem koma til með að þjónusta KIA bifreiðar í náinni framtíð og vonandi lengur. Og sannast sagna hlakka ég til að geta haldið áfram að leggja mín lóð á vogarskálarnar svo KIA nái þeim markmiðum sem sett eru.

Að sinni.

20.01.2008 21:07

Uppsetning ljósa


Þá hef ég sett í skrár hérna á síðunni upplýsingar um margar útfærslur á ljósauppsetningum. Þessar skrár eru pdf. skrár sem ég fann á einum af mjög svo mörgum spjallvefjum um ljósmyndun á netinu. Það þarf að renna í gegnum þær til að sjá heildarmyndina. En þarna er klifað á mörgu því sem verið er að gera í dag.

Og ennþá lætur maður sig dreyma um aðstöðu til æfinga, en verð að láta iðnaðarkastarana duga að sinni.

29.12.2007 11:27

Áramót og flugeldar.

Flugeldamyndatökur.

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er staðsetningin þegar ákveðið er að taka myndir af flugeldasýningu. Gott að velja stað þar sem lítil truflun er af umhverfinu, nú eða velja eitthvað sérstakt sem forgrunn þ.m.t. byggingar o.þ.h. en passa sig á að það skyggi ekki á heildarmyndina.

Næst þarf að hafa við hendina góðan þrífót. Margar gerðir eru til, en það er kannski ekki málið hver tegundin er, heldur að hafa þann nógu stöðugan og jelst í þyngri kantinum. Ég notast við Omega Pro sem er 4 kíló og stendur af sér nokkurn vind. Nú kjósa margir að taka rakettumyndir með vélina stillta Horizontal og þarf þrífóturinn að bjóða uppá það. Þó er það ekkert atriði. Enn aðrir vilja nota fjarstýringu á vélina, sem getur verið gott því "góða" skotið hefur þá áráttu að sleppa frá manni ef maður er of seinn að hleypa af. En þar sem ég og trúlega fleiri höfum ekki enn fjárfest í fjarstýringunni, notast ég við 2ja sekúndna tímarofann á vélinni.

Þá komum við að vélinni sjálfri. Gott er að hafa við hendina eins stórt minniskort og mögulegt er hverju sinni, því ekki viljum við verða uppiskroppa með pláss þar sem skotgleði okkar mörlandans er töluverð. Og annað mjög mikilvægt er að stilla vélina á hæstu mögulegu upplausn, því þá er meiri möguleiki á að redda sér í photoshop eftirá. E-500 hefur þrjú forsnið á myndum, JPEG í þremur aðalþjöppunarformum, RAW sem er myndin eins og myndflagan sér hana að hámarki 12,4 Mb hver skrá og svo TIFF sem er óþjöppuð mynd með öllum forstillingum vélarinnar inni, að hámarki 23,6 Mb hver skrá. Í þessu tilviki stillum við vélina á TIFF og með 4Gb korti höfum við úr að moða 168 myndum í fullum gæðum. Það ætti að
duga.

E-500 vélin hefur uppá að bjóða sérstaka forstillingu fyrir flugeldatökur, Fireworks Scene, sem stillir lokunarhraðann á a.m.k. 3,2 sek, fókusinn á manual, f/númerið á max f/22, ISO á 100 og setur sér Kelwin gráður á 3000 í white balance. Og með stöðugan þrífót ætti þessi stilling að gefa manni flottar myndir öllu jafna. Þó er hægt að notast við Manual stillinguna og
prófa sig áfram með stillingarnar.

Við getum leikið okkur endalaust með lokunarhraðann, t.d. með því að stilla á BULB og hleypa af þegar bomban springur og loka þegar hún hefur brunnið út. Þá nást allir ljóshalarnir frá því að sprengingin verður og þar til ljósið deyr út. Svoleiðis myndir geta orðið svaðalega flottar.

Loks komum við að linsuvalinu. Ég get ekki fjallað um aðrar linsur en þær sem fylgja vélinni, því maður er bara að láta sig dreyma ef ég væri að tala um 18-180 linsuna. En varðandi linsuvalið er staðsetningin sem ræður því aðallega. Ef við setjum okkur tiltölulega nálægt notum við 14-45 linsuna en 40-150 linsuna ef við erum fjarri. Svo einfalt. Bara eitt atriði varðandi linsurnar og notkun þeirra er að passa uppá að þurfa ekki að súmma neitt inn að ráði, því það spilar stóra rullu með skerpuna. Passa sig á að fara ekki það langt að f/16 verði ónothæft. Þá á ég við 40-150 linsuna. Sú ljósopsstilling hefur reynst mér happadrýgst á þeirri linsu með 13 sekúndna lokunarhraða.

Svo nú segi ég bara, komið með helv.... raketturnar.

Góðar stundir.

27.12.2007 14:44

Handstillingar 101

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga varðandi grunnstillingar við handstillingar.

Á meðan lítil þekking er komin á stillingum á lokunarhraða, ISO hraða, ljósops og "White Balance" er gott að notast við Auto stillingu og svo í framhaldinu skoða EXIF gögn myndanna í Photoshop. Með því móti er hægt að sjá hvað hver stilling gerir fyrir myndina í heild sinni.

Svo þegar kominn er nokkur skilningur á vægi lokunarhraða, ljósops og ISO hraða, er gott að temja sér nokkur einföld grunnhugtök.  Góð regla er að setja ISO hraðann á 100, sem gildir fyrir flestar venjulegar tökur. Hærri ISO hraði gerir það að verkum að kornastærðin eykst og allir litir verða stundum ýktir og hætta á svokölluðu "Noise" í bláum og rauðum litum. Hærri ISO hraði er einkum notaður innandyra í lítilli lýsingu, þar sem næmni myndflögunnar eykst til að geta fangað meira ljósmagn.

Hærra ISO = Meiri ljósnæmni,  Innandyra.

Minna ISO = Minna ljósnæmi.  Utandyra.

Þá vindum við okkur í lokunarhraðann. Í raun einfaldasta og áhrifaríkasta stilling vélarinnar. Meiri lokunarhraði, þ.e. sneggri (t.d. 1/1000 úr sekúndu) hleypir minna magni ljóss að myndflögunni, en aftur á móti getur það bitnað á litavægi og dýpt myndarinnar. Minni lokunarhraði, þ.e. hægari (t.d. 1/30 úr sekúndu) hleypir meira magni ljóss að myndflögunni og rafeindabúnaðurinn hefur þar af leiðandi meiri tíma til að vinna úr litum og birtustigi. Þær myndir verða ætíð skarpari, bjartari og "dýpri" litir.

Svo er komið að Aperture value, ljósopið, stundum vísað í DOF, Depth Of  Field, sem útleggst sem Brennivídd á okkar ylhýra. Þetta er svokallað F númer eða F stop. Focal length. Minna F númer, t.d. F/3,5  þýðir meira svæði fyrir linsuna og myndflöguna til að vinna úr. Þetta kemur oftast fram í því að meira svæði verður í fókus. Einnig er einföld útskýring á þessu hugtaki að lægra F númer hleypir meira ljósmagni inn, hærra F númer hleypir minna ljósmagni. Gott er að hafa í huga að sneggri lokunarhraði kallar á lægra F númer og öfugt.

Sem dæmi um þetta vægi,  Lokunarhraði 1/30 kallar á f/3,5, lokunarhraði allt að 60 sekúndum kallar á f/22.
Loks nokkur orð um White Balance, w/b stillinguna. Með þessari stillingu er hægt að ná fram sem raunverulegustu litum í myndirnar miðað við þá lýsingu sem í boði er, allt frá sólskinsdegi til ljóskastara í stúdíói. Þetta hugtak byggir á því hvað kallað er "heitt" ljós og "kalt" ljós. Ljósmagn í þessum skilningi er mældur í Kelvin gráðum. 

50K er fyrir heitt ljós, svo sem perulýsingu og allt að 14000K er fyrir t.d. Fluorcent lýsingu, eða kalt ljós. Þessi stilling segir myndflögunni hvernig hún vinnur úr litunum.

Tökum okkur eitt verkefni, myndatöku innandyra án flass.

Þá byrjum við á því að velja A, Aperture Priority. Prófum fyrst að taka myndir með þessa stillingu. Þar veljum við lægsta f/númerið sem vélin hefur uppá að bjóða, oftast með standard linsu u.þ.b. f/3,5. Þá höfum við sett vélinni gildi til að fara eftir við stillingar á öðrum atriðum. Setjum vélina þá á lægsta ISO gildi, í mínu tifelli ISO 100. Höfum önnur gildi á Auto.

Ef við svo skoðum hvað vélin gerir, er það annaðhvort sjáanlegt um leið og gikknum er þrýst niður hálfa leið, eða í Properties í myndskoðunarforriti. Mín vél velur 1/8 úr sekúndu sem lokunarhraða, sem er allt of lágur fyrir handnotkun. En myndin verður dagbjört, sé hún tekin á þrífæti. Þessi uppsetning er ein af betri aðferðum til að taka myndir innandyra án flass, en kallar hins vegar á þrífót og tiltölulega kyrrt umhverfi svo ekki verði of mikil hreyfing. 

Næst prófum við að taka mynd þar sem við getum valið lokunrahraðann, S stillingu, Shutter Priority. Öllu jafna er talið að lokunarhraði 1/30 úr sekúndu sé lágmark við handnotkun. Setjum okkur þann lokunarhraða. Og enn og aftur prófum fyrst að hafa ISO gildið á lægsta. Önnur gildi höfum við Auto. Linsuna á minnsta Soom, eða óútdregna þannig að f/númerið verður f/3,5 áfram. Smellum einni svona.

Við tökum strax eftir því að myndin er töluvert dekkri en sú sem var tekin fyrst. Því er um að kenna lágu ISO og White Balance á Auto.

Næst prófum við að hækka ISO í 200, annað óbreytt. Smellum einni svona. Og hver er munurinn? Jú, ásættanleg mynd tekin innandyra án flass.

Nú hugsum við okkur að við séum að taka myndir í fjölskylduboðinu, mikið um hlaupandi börn og fólk að tjá sig. Þá er ljóst að lokunarhraði 1/30 úr sekúndu er ekki nægur til að fólk sé kyrrt á myndunum. Miðað við mína reynslu er 1/80 algjört lágmark, helst 1/125 úr sekúndu. Og höfum flassið af, því það gerir ekki mikið annað en að búa til skugga og óæskilegan glampa í augu.  

Setjum okkur lokunarhraða 1/125. Hækkum ISO gildið í 400. Sem er næstum því "Noise" frítt. Smellum einni svona. Þessi mynd verður dökk, enn og aftur vegna lágs ISO og Auto White Balance. Það sem við getum gert er að hækka ISO, allt að 800, helst ekki yfir til að koma í veg fyrir noisaðar myndir, þ.e. áberandi bláa og rauða bletti. Einbeitum okkur frekar að White Balance þarna. Flestar stærri myndavélar bjóða uppá manual stillingu á white balance og er að gert með því að halda hvítu blaði ca. meter frá linsunni, halda inni þeim takka ásamt því að hleypa af. Þá er vélin komin með forstilltan balance miðað við lýsinguna. Point and Shoot myndavélar hafa ekki allar þennan möguleika, heldur stillingu sem vísar í perulýsingu og ætti að stilla á hana. Gerum þetta og höfum ISO í 800. Smellum einni svona. Og hvað gerist, jú myndirnar verða ágætar, að vísu ræðst litablöndunin eftir því hvort perustillingin á White Balance setur heitt ljós eða kalt ljós sem grunninn. Það er vel hægt að jafna í Photoshop eða öðru myndvinnsluforriti.

 

21.12.2007 21:25

Hreingerning

Þá kom að því að ég tók almennilega til á síðunni, henti út bullinu og er að skipuleggja markvissara blogg. Þar sem tilgangur þessarar síðu er að deila mínum ljósmyndaáhuga og fræðigreinum, þá mun ég setja meira inn af því efni.

Nú er það helst að frétta að bók Áhugaljósmyndara, Ljósár 2007 er alveg stórgóð, þótt ég segi sjálfur frá, verandi með efni í bókinni. Heildaryfirbragð bókarinnar er með algjörum ágætum og afar skemmtileg skoðunar.

Og nú stendur einnig yfir mikil hreingerning í myndaalbúmum, nóg að gera þar.
clockhere
Today's page views: 8
Today's unique visitors: 4
Yesterday's page views: 34
Yesterday's unique visitors: 6
Total page views: 355219
Total unique visitors: 78227
Updated numbers: 15.12.2017 03:10:02